Máttúrinn að staldra við með hrynjanda náttúrunnar
Í hraða og asa nútímasamfélags gleymum við oft þeirri djúpu visku sem finnst í náttúrulegum takti jarðarinnar. Rétt eins og árstíðirnar breytast og sólin rís og sest þá döfnum við eins og náttúran þegar við heiðrum þessa hringrás. Í þessu fréttabréfi fjalla ég um umbreytandi áhrif þess að staldra við, og kem með tillögur að því hvernig þú getur innleitt það að staldra við í daglegu lífi. Einnig færð þú leiðarvísi um hvernig þú getur nýtt sumarsólstöðurnar til að staldra við og stilla þig inn það sem eftir er af árinu.
Listin að staldra við
Að staldra við er ekki einungis hlé frá athöfnum; það er athöfn sem leyfir taugakerfinu okkar að hvílast, endurnærast og stilla sig af. Það getur þó verið hægara sagt en gert þegar við höfum alist upp í að virði okkar er bundið við hversu „dugleg“ við erum. En þegar við æfum okkur í að staldra við gefst okkur tækifæri til að vera til staðar fyrir okkur sjálf og hlusta á skilaboð líkamans og ósjálfráða taugakerfisins. Þá getum við aðlagað okkur að því sem við þurfum til að halda áfram í samhljóm við okkur sjálf og upplifað aukna velsæld í daglegu lífi.
Ástartungumál taugakerfisins
Taugakerfið okkar er stöðugt að senda okkur skilaboð en oftast erum við of upptekin til að hlusta með meðvitund á þessi skilaboð. Ef við stöldrum ekki við, hlustum og bregðumst við þá fer líkami okkar að senda háværari og meira afgerandi skilaboð. Til þess að taugakerfið haldi jafnvægi og nái að bregðast við áreitum daglegs lífs á skilvikan hátt þurfum við að gefa okkur stund til að gefa eftir. Án reglulegra hléa getur taugakerfið orðið of spennt, sem leiðir til kvíða, þreytu og annarra óþæginda. Með því að ásetja okkur að staldra reglulega við í daglegu lífi nærum við taugakerfið okkar, styrkjum tengsl við okkur sjálf og byggjum upp seiglu til að takast bæði á við lífsins stillu og ólgusjó.
Hrynjandi náttúrunnar
Náttúran er hinn fullkomni leiðbeinandi í að kenna okkur mikilvægi þess að staldra við. Þegar við horfum til hennar sjáum við hringrásir dags og nætur, flóðs og fjöru og árstíðabreytingar. Meira að segja vindurinn tekur sér hlé milli vindhviða og ef þú veitir því athygli getur þú tekið eftir þessu sömu hléum í þínum eigin andardrætti. Þessi taktur náttúrunnar minnir okkur á nauðsyn hvíldar og ígrundunar. Þegar við nálgumst sumarsólstöður, lengsta dag ársins, standa okkur til boða sérstök tækifæri til að staldra við og tengjast okkur betur með þessum náttúrulega takti.
Hrynjandi náttúrunnar sem áminning
Á sumarsólstöðum staldrar sólin við á efsta punkti áður en hún byrjar að lækka á lofti aftur og verður lægst á baugi á vetrarsólstöðum. Þetta er náttúrulegt augnablik kyrrðar sem býður okkur að skapa okkar eigin augnablik kyrrðar. Hér eru nokkrar leiðir til að taka inn þessa orku:
- Skapaðu rými fyrir þig: Finndu rólegan stað í náttúrunni eða innandyra þar sem þú getur verið kyrr og án truflana. Þetta gæti verið uppáhaldsstaður í skóginum, kósí horn heima eða friðsæll garður.
- Anda og kjarna: Byrjaðu með djúpu, meðvituðum andardrætti til að kjarna þig. Finndu fyrir jörðinni undir þér og himninum yfir þér, tengdu þig inn á skynfærin og frumefnin í kringum þig.
- Ígrundun og skriftir: Gefðu þér tíma til að ígrunda ferðalag þitt það sem af er ári. Hvað hefur þú lært? Hvaða áskoranir hefur þú staðið frammi fyrir? Hvað hefur verið eftirminnilegast? Notaðu dagbókarskrif til að kanna hugsanir þínar og tilfinningar.
- Ásetningur: Hugleiddu hvert þú vilt stefna og hvaða ásetning þú vilt bjóða inn í seinni hluta ársins. Lifir þú í samhljómi við þig og þínar þarfir? Aðlagaðu það sem þörf er á til að tryggja að þín stefna endurspegli þínar raunverulegu langanir og gildi. Eru hugsanir, orð og gjörðir í samræmi við það sem þú vilt skapa fyrir þig? Mundu að sem fær athygli vex.
- Meðvituð hreyfing: Hlustaðu inn á við á skynjanir líkamans og hvernig þú upplifir þig og líkamsstöðu þína þegar þú ert í samhljóm við þinn náttúrulega takt. Leyfðu líkama þínum að hreyfast frjálslega, losa um spennu og finndu hvort eitthvað vilji vakna til lífsins. Kannski kynnist þú þér á nýjan hátt.
- Áminning: Er eitthvað í náttúrunni eða hlutur sem þú átt sem þú getur haft nærri þér í daglegu lífi til að minna þig á ásetning þessara tímamóta?
Að staldra við sem dagleg iðkun
Þótt sólstöður bjóði sérstakt tækifæri til að staldra við þá birtast okkur daglega boð um að staldra við. Það er mikilvægt að innleiða regluleg hlé í daglegt líf. Hér eru nokkrar einfaldar æfingar:
- Morgunathöfn: Byrjaðu daginn með nokkrum mínútum af meðvituðum andardrætti eða mjúkum hreyfingum til að lenda í líkamanum þínum. Einhver athöfn sem setur tón fyrir daginn.
- Náttúrutengsl: Farðu reglulega í göngutúra í náttúrunni og leyfðu því sem þú sérð, heyrir og finnur lykt af að róa taugakerfið þitt.
- Meðvituð hlé: Taktu stutt hlé yfir daginn til að tengja þig inn á þig og kroppinn þinn. Taktu stöðuna á gæðum andardráttarins og teygðu úr þér.
- Kvöldígrundun: Endaðu daginn með nokkrum mínútum dagbókarskrifa þar sem þú ferð yfir daginn og þakkar fyrir það sem vel fór eða undirbýrð komandi dag.
Með því að heiðra hrynjanda náttúrunnar og staldra við erum við að setja tengslin við okkur sjálf í forgang. Við getum skapað rými fyrir heilun, vöxt og umbreytingu.