Viðtal við Öldu Pálsdóttur iðjuþjálfa, jógakennara og margt fleira
Birtist í Iðjuþjálfinn I Fagblað iðjuþjálfa I 1. tölublað 2024
Eftir að hafa menntast og unnið á fjölbreyttum vinnu- stöðum, jafnt sem iðjuþjálfi, jógakennari og nuddari, og meðal annars stofnað Tengslasetur og hagsmunasamtök, stendur Alda Pálsdóttir enn á ný frammi fyrir spennandi áskorunum – að dvelja að hluta erlendis og vinna í auknum mæli sjálfstætt í gegnum netið, áfram við að styðja og virkja fólk, auk þess að ná að lifa hæglátara lífi. Við settumst niður með Öldu til að heyra af hennar fjölbreyttu reynslu og öllum blómunum sem hún hefur tínt í reynsluvöndinn sinn.
Fyrst langaði okkur að vita ögn um uppruna Öldu. Í ljós kemur að hún er að norðan, úr Reykjahverfi í Norðurþingi og átti að mörgu leyti rólega æsku. „Fædd og uppalin örugg lega í einhverri moldarhrúgu þar sem pabbi og mamma eru garðyrkjubændur og margar kynslóðir á þessum bæ. Ég er mjög lánsöm að hafa alist upp í svona miklu návígi við náttúruna. Amma og afi voru síðan í næsta húsi, þetta var svona styðjandi á þann hátt. Það eru auðvitað áskoranir og ýmislegt sem mótar mann, hvaðan maður kemur,“ lýsir hún. „Við eigum öll okkar sögu sem varpar kannski ljósi á hvers vegna við gerum það sem við gerum. Í minni sögu varð t.d. áfall í fjölskyldunni þegar ég var mjög ung og ég horfi á það sem drifkraft í því sem ég tek mér fyrir hendur í dag. Ég var heppin með styðjandi nærfjölskyldu og náttúru allt í kring sem var mjög eflandi,“ heldur hún áfram.
Stolt af að vera iðjuþjálfi
Hún fór til náms á Akureyri og smátt og smátt leiddist hún inn á braut iðjuþjálfunar. Þá liggur beinast við að spyrja hvers vegna? „Mjög góð spurning. Ég vissi að ég vildi vinna með fólki og ég vissi að hjúkrun var ekki fyrir mig, vaktavinnan, hún fer ekki vel í skapið á mér. Iðjuþjálfun var bara svo forvitnileg. Mamma æskuvinar míns er iðjuþjálfi, og þetta var alltaf smá spennandi. Ég vissi að það var eitthvað með endurhæfingu, svona að hjálpa fólki að koma sér aftur á strik og þetta er
svo rosalega fjölbreytt. Ég held að það sé besti kosturinn við fagið, en getur líka verið mesta áskorunin, allavega í byrjun þegar maður er að stíga sín fyrstu skref út á vinnumarkaðinn. Ég útskrifaðist 2015 og hef alltaf verið mjög stolt af því að vera iðjuþjálfi. Maður er einhvern veginn með flagg iðjuþjálfunar á lofti, um leið og maður hittir annan iðjuþjálfa eða einhvern sem veit hvað iðjuþjálfun er, þá verður maður svo glaður!“ segir Alda.
„Mér finnst iðjuþjálfun svo geggjað fag, alveg eins og fólk fer til markþjálfa eða sálfræðings, þá ætti fólk alveg eins að fara til iðjuþjálfa. Þetta fag blandar bæði huga og hjarta og hjálpar fólki að lifa lífi sem skipti það máli. Ég vinn í kerfinu að hluta til, sem veitir ákveðið öryggi, og er líka að æfa mig að taka pláss, koma orðinu út og markaðssetja hvað iðjuþjálfun hefur upp á að bjóða fyrir almenning. Það er risa áskorun þegar maður vill í grunninn ekki láta mikið fyrir sér fara. Ég heyrði einhvers staðar að það er eigingirni að láta ekki ljós sitt skína, að setja ljós sitt undir mæliker, það drífur mig áfram í þessari vegferð. Það er líka mikilvægt að hafa skýran tilgang, að vita hvers vegna maður gerir það sem maður gerir. Þá verður þetta allt einhvern veginn auðveldara, þegar þetta er erfitt,“ útskýrir hún.
Spennandi að prófa sig áfram
Alda segir forvitnina hafa einkennt allan sinn starfsferil, og hefur hún öðlast víðtæka reynslu í gegnum margs konar starf og nám. „Strax og ég fór að læra iðjuþjálfun fór ég að starfa sem aðstoðarmaður iðjuþjálfa á Landspítalanum, geðdeildinni og BUGL og í Fossvogi. Svo þegar ég útskrifaðist þá hélt ég áfram á Kleppi og var þar á sérhæfðri endurhæfingargeðdeild. Það var mjög spennandi, þar fékk maður að prófa sig mikið áfram. Ég fór síðan á Æfingastöðina og þar var ég með minn fyrsta náttúrumeðferðarhóp sem var 10 mánaða Erasmus+ verkefni með iðjuþjálfunum Sæunni Pétursdóttur og Jónínu Aðalsteinsdóttur, og þar með varð þessi meðferðarnálgun ein af ástríðunum. Ég kynntist slíkri meðferð hjá Hörpu Ýr Karínar dóttur á Kleppi þegar ég var nemi þar fyrst,“ rifjar Alda upp. „Í haust byrjuðum við Harpa með náttúrumeðferðarhópa fyrir konur sem vilja draga úr streitu sem kallast Flæði lífisns. Þar erum við að vinna með Kawamódelið japanska um ána, nota þessa myndlíkingu til að greina hvað er að valda streitu og hvaða bjargráð við höfum – það er mjög skemmtilegt og áhrifamikið námskeið,“ bætir hún við.
„Eftir Æfingastöðina fór ég í vettvangsgeðteymi hjá Reykja víkurborg, að veita geðkjörnum þar þjónustu og náttúrumeðferð ásamt Guðrúnu Friðriks. Var síðan verkefnastjóri í endurhæfingarbúsetu fyrir einstaklinga sem voru með geðrofssjúkdóm og fíknivanda. Ég held að þar hafi áhuginn á þessum forvarnarvinkli vaknað. Þegar maður sá þessa ungu krakka þar sem rótin var eitthvað áfall eða tengslarof eða streita í æsku. Síðan langar mann bara að koma í veg fyrir alla þessa þjáningu seinna meir,“ lýsir hún.
Unnið úr spennu og streitu
Samhliða iðjuþjálfastörfum hefur Alda bætt við sig ýmsu gagnlegu og er sannarlega með marga hatta. Okkur leikur forvitni á að vita hvað hún hefur lært fleira. „Ég fór í jóga kennaranám sem blandast inn í þetta allt saman. Undanfarið hef ég verið að dýpka þekkinguna um líkamsmiðaðar nálganir og einnig lært líkamsmeðferðir, eitt heitir Chi Nei Tsang og er í reynd líffæranudd. Það er oft notað til að hjálpa fólki að ná andanum dýpra og ná að sleppa spennu sem hefur safnast upp í kroppnum. Og líka Tainudd sem hreyfir orkuna í líka manum,“ segir Alda.
„Síðan, í sambandi við jógað, þá á taugakerfið hug minn allan. Eftir að ég átti barnið mitt fór ég að hella mér í að skoða taugaþroska hjá börnum, og auðvitað þurfum við líka að styðja við foreldra til þess að þau geti stutt börnin sín svo þau fái jarðveg til að vaxa. Í því sambandi kynnti ég mér störf Gabor Maté. Hann var heimilislæknir, fæddur á stríðsárunum í Ungverjalandi. Hann flutti síðar til Kanada og varð mikill frum kvöðull í að skoða áhrif streitu og hvernig hún leiðir til alls kyns heilsufarskvilla. Sérstaklega þegar við upplifum streitu snemma á lífsleiðinni. Hann skoðar sérstaklega viðkvæmni kvenna fyrir streitu, hvernig við erum sinnum líka fleiri hlutverkum og hvaða heilsu farsafleiðingar þetta hefur, sjálfsofnæmissjúkdóma og þess háttar,“ útskýrir hún.
Þjóðfélaginu á Íslandi fylgi ákveðin streita sem þurfi að taka á. „Mögulega megum við horfa á hraðann í samfélaginu okkar og og vera gagnrýnin um hvaða áhrif hann hefur. Skoðum bara hvað það er mikið álag á kerfinu okkar og úrræðum eins og t.d. VIRK, tölur um kulnun eru í hæðstu hæðum. Hvaða áhrif það hefur á okkur sem fullorðin eru, en hvaða áhrif það hefur á börnin okkar, þessa ört vaxandi heila. Leikskóla kennarar eru til dæmis stétt sem brennur út í stórum stíl og er á sama tíma akkúrat þeir sem þurfa að hafa sín taugakerfi í jafnvægi til þess að börnin fái tækifæri til að læra að skynjafna sín taugakerfi. Hér þurfum við sem samfélag að gera betur,“ leggur Alda áherslu á.
Virk í stofnun seturs og samtaka
Eftir vinnu í endurhæfingarbúsetu fór Alda að starfa meira sjálfstætt og stofnaði Tengslasetur með Sólveigu Kristínu Björgólfsdóttur iðjuþjálfa. sem átti að vera stuðningur fyrir foreldra, viðburðir og ráðgjöf og iðjuþjálfun. „Ég komst þá
að því að það var ekki mikill vettvangur fyrir talsmenn fyrir þennan hóp; viðkvæmasta og mikilvægasta aldursskeiðið,“ bendir hún á.
„Ég stofnaði hagsmunasamtökin Fyrstu fimm, sem eru svolítið að taka saman fræðin og reynslu foreldra, til að vera rödd fyrir þennan hóp. Þessi fyrstu fimm ár eru svo fljót að líða og það er svo mikið í gangi hjá fólki, en síðan er þetta tímabil búið og þá er það bara búið. Þá er bara næsta sem tekur við einhvern veginn. Það er búið að sýna fram á að fjármunum er best varið í þessi fyrstu ár frá getnaði, samkvæmt James Heckman sem fékk Nóbelinn árið 2000. Margfaldur sparnaður í heilbrigðis og mennta og dómskerfinu okkar,“ ítrekar hún.
Tengslasetur er enn starfrækt og haldnir viðburðir en ekki í sama formi og í byrjun þegar var ákveðin stundatafla. „Núna eru einstaka viðburðir og svo ráðgjöf. Teymið samanstendur af iðjuþjálfun, foreldra og uppeldisfræðingum sem og skilnaðarráðgjöf. Þar erum við að fókusa á fyrirbyggjandi hátt, á tengslin við okkur sjálf, og við fjölskylduna. Til að byggja börnum þennan góða jarðveg.“
Spennandi áskoranir í hæglátara lífi
Alda hefur ákveðið að taka nýjum áskorunum – prófa að dvelja að hluta til erlendis og vinna í auknum mæli í gegnum netið. „Ég er nýlega farin að vinna alveg sjálfstætt undir formerkjum Alda Páls og þá hefur stærsta áskorunin verið bókhald og tímastjórnun. Vera að tala fyrir að draga úr álagi og vera samtímis fyrirmynd þess sem ég predika, þú veist – „talk the talk og walk the walk“. Þetta er samt sem áður mikið af skemmtilegum áskorunum og spennandi verkefnum í raun og veru,“ lýsir hún.
„Ég á eina dóttur, 5 ára, sem er stóri kennarinn minn. Hún hjálpar mér að yfirfæra það sem ég veit að er gott fyrir mig inn í daglega lífið og er mjög heiðarlegur spegill þegar ég þarf að gera aðeins betur. Ég er alltaf að leita leiða til að lifa aðeins hæglátara lífi og njóta þess að vera mamma. Núna ætla ég að prófa að dvelja hluta úr ári erlendis, vera eins og farfuglinn, og finna hvort hæglætið verði aðgengilegra þar sem kostur er á að vinna minna og vera meira.“
Þegar Alda er spurð hvernig hún sjái framtíðina fyrir sér á hún sér skýra sýn. „Að ég verði orðin svolítið góð í þessu sem ítalska máltækið segir: „Dolce far niente“ – sem þýðir listin að gera ekki neitt. Að slaka á. Draumurinn væri að búa í nálægð við náttúru, búa erlendis hluta úr ári, og vinna meira með höndunum. Rækta grænmeti, fá smá mold undir neglurnar. Það er auðveldara að hægja á tempóinu þegar maður skiptir um umhverfi,“ bætir hún við.
Alls kyns námskeið í fjarvinnu
„Það sem ég geri er ekkert aðeins vinnan mín, heldur líka lifuð reynsla, áhugamál og ástríða. Mig langar að bjóða upp á fjarþjónustu til að geta deilt þessu, sem ég veit að virkar, með fleirum óháð búsetu. Ég nýt þess þó mjög að vinna bæði með fólki og hópum í persónu og mun halda áfram að gera það.“ Hún starfar einnig í teymi í Grænuhlíð og þar eru mörg spenn andi verkefni í þverfaglegri teymisvinnu. „Þar er ég ásamt Hörpu Ýr, með náttúrumeðferðarhóp fyrir flóttabörn. Þetta er hópur 16–18 ára ungmenna en þau tala ekki öll íslensku eða ensku og það er til dæmis ein mjög spennandi áskorun að finna út úr. Ég býð upp á viðtöl gegnum Kara connect og netnámskeið. Netnámskeiðið heitir Tungumál taugakerfisins, en þar er lögð áhersla á að við lærum að vingast við tauga kerfið okkar með að 1) þekkja hvernig það virkar og 2) nýta þessa þekkingu til að skapa okkur líf velsældar. Þar lærum við að vingast við kroppinn okkar auk þess að skilja og vinna með vanamynstrin okkar,“ útskýrir Alda.
Gefandi og krefjandi í senn
Þegar talið berst að hvað sé skemmtilegast við starfið segir Alda það meðal annars vera að hitta fólk og kynnast fólki. „Hvaða drauma hefur það, hvaða þrár? Hvaðan er það að koma? Og þegar fólk fer að sjá rými til breytinga, þetta sjálfsprottna. Þegar fólk fær þessi ahamóment, það er það sem gefur þessari vinnu gildi,“ lýsir hún.
Að sama skapi eru erfiðar stundir. „Til dæmis að halda rými fyrir fólk þegar það stendur frammi fyrir erfiðleikum, jafnvel dauða eða deilir þungbærri reynslu – það getur reynt á. Áður vann ég mikið með þungum hóp af fólki, þá felst vinnan svo mikið í að mótivera fólk til að þiggja aðstoð, það er líka áskorun. Svo sér maður fólk taka einhver heljarstökk og það er svo ótrúlega gefandi,“ bætir Alda við.
„Núna vinn ég mikið með einstaklingum sem koma á eigin vegum eða í gegnum Virk, en þetta er hópur sem er mótiveraður og það er mjög skemmtileg vinna. Ég hef líka starfað hjá Ljósinu, nýhætt þar í föstu starfi, kem inn með fyrirlestra og vinnustofur. Þar er fólk líka ótrúlega móttækilegt og á þannig stað í sínu lífi að þau eru opin fyrir að endurskoða. Það er líka mjög gefandi að vinna þar.“
Sjálfsvöxtur í gegnum fag á uppleið
Aðspurð um hvað Alda vill segja nýjum iðjuþjálfum að hafa í huga svarar hún: „Það sem drífur mig allavega áfram er: Ég myndi sjá eftir því ef ég myndi ekki láta á það reyna. Og vera forvitin í ferlinu, forvitni vinnur nefnilega bug á dómhörku. Ég hef mátt þakka fyrir verið svo ótrúlega heppin með allt fólkið í kringum mig, það eru svo margar fyrirmyndir og margir klárir að gera svo flotta og mikilvæga hluti – Besta ráðið er bara að vera endalaust forvitin!“
Hún bendir á hve skemmtilegt sé hvað það eru margir möguleikar til þess að ögra sjálfum sér á nýjan hátt, stíga út fyrir þægindarammann og svala forvitninni. „Í sumar fór ég á Evrópuráðstefnu um náttúrumeðferð. Maður setur sjálfan sig í aðstæður sem maður er að bjóða fólki upp á. Þarna fór ég í tveggja daga kanóferð þar sem maður er einn á kanó en samt í hóp. Sigldi niður á og gisti bara undir tjalddúk um nóttina. Þetta finnst mér skemmtileg minning allavega. Það er svo mikill sjálfsvöxtur í gegnum fagið – svo mikil þroskabraut. Allt getur verið það ef maður kýs að horfa á það þannig,“ bætir hún við.
Alda telur iðjuþjálfafagið á mikilli uppleið. „Ég held að við séum að fá betri viðurkenningu á okkar þekkingu, við erum heilbrigðisstétt með þekkingu á endurhæfingu og forvörnum, og hvernig við getum nálgast fólk í endurhæfingunni og skoðað hvernig skynjun hjá fólki er, það er ótrúlega dýrmætt. Að átta sig á hvaða áhrif það er að hafa inn í taugakerfið þitt og af hverju maður upplifir og bregst við heiminum á ákveðinn hátt,“ segir Alda að lokum.
Fylgdu Öldu á samfélagsmiðlum @aldapals og á heimasíðu hennar aldapals.com